Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

TIL ÁSTU LÆKNIS Á ÚTSKRIFTARDAGINN

 

Þó við séum fjarri veislunni þá erum við með ykkur í huganum.

Til hamingju elskan!

-Einar frændi og fjölskylda,

Nottingham 


MIG LANGAR AÐ DREPA MANN

Ég veit ekki hvort ég hata meira, tannlækna eða kóngulær. Sennilega tannlækna... ég get drepið kóngulærnar án þess að það sé gert að stórmáli.

Ég fór til tannsa í gær og hann eyddi megninu af eftirmiðdeginum í að bora og andskotast uppí mér og endaði svo á því að draga úr mér endajaxl sem ekkert var að. Þar sem ég var með kjaftfylli af bómull og öðru drasli sem hann hafði troðið þangað og allar tennur deyfðar nema þær sem hann var að reyna að laga, þá tók ég ekki eftir því í hasarnum fyrr en hann hélt á jaxlinum. Það er ekki eins og maður geti úðað útúr sér orðaflaumi í mótmælaskyni við þessar aðstæður.

Ég er á því að það sé alveg sérstök manntegund sem velur sér þessa starfsgrein. Fégráðug illmenni með kvalalosta. Og ástæðan fyrir því að þeir eru með grímur meðan þeir misþyrma á manni talhólfinu er pottþétt ekki af hreinlætisástæðum. Það er til að við berum ekki kennsl á þá ef við mætum þeim utan vinnutíma!


EKKI KARLMANNSVERK!

Á mínu heimili er ekkert til sem heitir karlmannsverk og kvenmannsverk. Við einfaldlega gerum það sem við getum, viljum og nennum, ... þegar við getum, viljum og nennum. Ég smíða, mála, legg gólfteppi og flísar, set upp hillu- og ljósastæði, slæ garðana og sníð til skógargróðurinn sem skilur að lokaðan bakgarðinn okkar og nágranna okkar á tvo vegu.

Ég lagði parket á neðri hæðinni og fjárfesti í timbri í uppáhalds timbursölunni minni fyrir girðinguna sem ég smíðaði fyrir framan húsið. Verkfærakistan mín samanstendur af flestu því sem ég fékk ekki að nota sem stelpa. Faglærður smiður myndi vera stoltur af að eiga það sem þar er. Þar á ég flest þau verkfæri sem ég þarf til að gera það sem mig langar. Þar með talið að gera upp eldgömul antikhúsgögn sem ég hef viðað að mér fyrir tíkalla á pöbbauppboðum og útimörkuðum og prýða nú heimilið okkar. Úr afgangs viðarspýtu smíðaði ég svo 4ra flösku bar á vegginn í stofunni.

Einar, minn yndislegi eiginmaður, getur þetta allt líka. Hann er afar handlaginn og listamaður til flestra verka. Honum finnst bara fínt að þurfa ekki að rjúka til ef skipta þarf um peru. Hann eldar þegar hann langar til, setur í þvottavél, vaskar upp, ryksugar og skúrar jafnvel þegar best liggur á honum. Hann gerir líka helling annað. Kemur til dæmis á harðaspretti eins og hesturinn undir hvíta riddaranum í hvert sinn sem hann heyrir öskur. Veit að þá þarf að lóga kónguló.

Í gærmorgun slagaði ég niður í eldhús fyrir allar aldir, með stírurnar í augunum, á undan öllum hinum (aldrei slíku vant). Hafði vaknað við glamrið í mjólkurpóstinum og af því ég þurfti á klóið hvort sem var, ákvað ég að koma mjólkurflöskunum í kæli áður en gula fíflið næði að skína á þær og hita þær ódrekkandi. Opnaði eldhúsdyrnar og sá að kattakvikindin höfðu dröslað risastórum fugli innum kattalúguna og þar lá hann í blóði sínu hálfétinn en steindauður sem betur fer. Fjaðrir útum allt gólf og hreyknar og hróðugar læðurnar lágu saddar og malandi ofaná kettlingahrúgunni í bastkörfunni. Fjandinn sjálfur logandi, hugsaði ég og sópaði megninu af fjöðrunum útí hornið næst bakdyrunum. Ákvað að þetta væri verk fyrir fyrir þá stjúpfeðga þegar þeir vöknuðu og gleymdi öllu um mjólk sem lægi undir skemmdum í sólinni á meðan ég forðaði mér á flótta upp í rúm og sofnaði samstundis. 

HGE 03Ég vaknaði svo undir hádegi við að Rósa mín hristi mig til og sagði á sinni sérstöku ísl-ensku; (hún var ársgömul þegar við fluttum og talar svolítið eins og KN orti) "MAMMA!! Kisa er búin að killa alveg huge fugl og troðonum inní kitchenið og það er blóð og feathers útum allt!!" -"Já ég veit elskan, sá það í morgun", hvíslaði ég hálfsofandi og ákvað að leika mig steinsofandi þar til málunum hefði verið reddað. Í sömu mund kom Kristján inn til okkar nývaknaður og lagðist til fóta. Hafði ráfað hálfsofandi niður til að fá sér morgunmat en hrökklast upp aftur þegar hann sá vígvöllinn. Þagði smástund, eins og til að sannfæra sjálfan sig um að þetta væri ekki hans djobb. Beindi svo máli sínu til Einars, sem hafði vaknað við æsifréttirnar og var sestur upp við dogg og búinn að koma risapúðanum fyrir við bakið. -"Plís Einar, þetta er alveg últra ógeðslegt! Mig hryllir bara við tilhugsuninni um að snerta þetta og ég veit að mamma fær kast þegar hún vaknar".

Þegar hér var komið sögu lá ég með lokuð augun, glaðvakandi og spennt fyrir framhaldinu, en þóttist sofa og hraut krúttlega til að vera sannfærandi. Einar þagði fallega líka en laut svo að mér, kyssti mig á ennið og hvíslaði: -"Góðan daginn elskan". Vonaði örugglega að nú færi ég niður og færði honum kaffið í rúmið, en ekki öfugt eins og venjulega. Bjartsýni kostar ekkert frekar en kurteisi. Nú fannst mér kominn tími til að taka þátt í deginum og settist upp í rúminu. Teygði mig risakoddann minn og setti bakvið mig, kyssti manninn minn létt á kinnina og umlaði "góðan daginn elskurnar mínar" við hann og krakkana sem nú voru bæði komin til fóta. -"Það verður einhver að gera eitthvað í þessu niðri", sagði 12 ára unglingurinn diplómatískt en í þeim tón að við vissum öll að það yrði að vera einhver annar en hann.

Við Einar þögðum bæði drykklanga stund. Einar þagði vegna þess að hann vissi að það myndi dæmast á hann að fjarlægja hræið. Ég þagði vegna þess að ég vissi að það myndi dæmast á Einar að fjarlægja hræið. En þá barst hjálpin með 7 ára stelpurödd: "-Pabbi, let me do it! Ég geri bara eins og Kane sagði mér að gera þegar Suggs skítti í garðinum okkar. Ég bara set hendina á hvolf inní plastic bag og grabba svo fuglinn eins og skítinn og hendonum í binnið fyrir endurvinnsluna!".

Þessi skelegga ræða þeirrar stuttu vakti hlátur í rúminu og sorgleg örlög fuglsins voru gleymd. En áður en við gátum stoppað hana af, þá heyrðum við hana skoppa niður stigann og kalla hreykna yfir eigin hugrekki: -"Rósa to the resque!!"

Ég ætlaði á eftir henni en hætti við það. Hugsaði, stolt af stelpunni minni: "ÞAÐ ER EKKERT TIL SEM HEITIR KARLMANNSVERK!"


FIMM FINGUR - SEX... TÆR? - SJÖ DVERGAR

Playing bridge is like having sex, if u dont have a good partner then u better have a good hand!
mbl.is Ísland í 3. sæti í kvennaflokki á NM í brids
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GRÆNIR GASBÍLAR - GRÓÐI OG SPARNAÐUR

Vinahjón okkar hér eru komin á grænan jeppa. Hann er að vísu dökkblár á litinn en er orðinn sparneytinn og umhverfisvænn. Og mér skilst að allt umhverfisvænt sé grænt. Það var þó ekki græni væni liturinn sem réði því að þau létu breyta honum í "gasbíl".

Ég hef nú í nokkur á flokkað heimilisruslið mitt samviskusamlega í "gler", "endurvinnslu" og "allt hitt" meðan vinir okkar gumsa öllu sínum afgangi í einn stóran, svartan. Það var því örugglega ekki af umhyggju fyrir andrúmsloftinu eða af ótta við gróðurhúsaáhrifin sem olli því að þau breyttu jeppanum. Ástæðan er einföld. Sparnaður. Þessir góðu vinir okkar eru nefnilega rosalega klók í peningamálum.

Þau höfðu ætlað að selja jeppann. Aðallega vegna þess að hann var drykkjusvoli og eyðslukló. Þeim hafði ekki tekist að finna kaupanda á þær tvær milljónir króna sem þau töldu sig þurfa að fá fyrir hann. Þá fréttu þau af verkstæði sem auglýsti að það breytti bensínhákum í sparibauka.

Mér fannst fljótt á litið frekar lítill sparnaður í að eyða 1.700 pundum (ca 215.000 kr) í breytinguna yfir í LPG (Liquefied Petroleum Gas). En þegar ég frétti að hann hefði varla verið búinn að komast út af verkstæðinu þegar þeim voru boðnar 2.5 milljónir fyrir hann, þá fattaði klókindin. Ekki bara hafði illseljanlegur jeppinn orðið auðseljanlegur og aukið söluverðmæti sitt yfir nótt, heldur kostaði það nú þrisvar sinnum minna að fylla tankinn. 

Fyrir íslenska ökumenn sem hafa áhuga að að kynna sér málið, þá birti ég hér gagnlegar slóðir.  http://www.lpg-cars.co.uk/financial/ Hérna geta menn fræðst um LPG breytingar og sýnd er aðgengileg og einföld tafla hver sparnaðurinn er miðað við eyðslu, vélarstærð og kílómetrafjölda sem eknir eru. Að vísu er þarna talað um mílur pr gallon, en því geta menn á einfaldan hátt breytt hér: http://www.onlineconversion.com/fuel_consumption.htm 

Að lokum úr eldsneytissparnaði yfir í afmæli. Stjúpinn minn góði hann Kristján Kristjánsson skólastjóri er sextugur í dag. Þau mamma eru nú að spóka sig í sumarsól í útlöndum og við fjölskyldan sendum honum hjartanlegar hamingjuóskir á stórafmælinu og vonum að þau njóti bæði dagsins og ferðarinnar. Krakkarnir báðu fyrir sérstakt risaknús til afa!

 


"ÉG MEINTI ÞAÐ ÞEGAR ÉG SAGÐI ÞAÐ"

Fyrirsögnin mín er stolin frá Steingrími Hermannssyni. En nú geri ég hans orð að mínum þó að miklu skemmra sé milli orða og eftirsjár hjá mér en honum.

Ég var rétt í þessu að horfa á nýjustu heimildamyndina um Díönu prinsessu sem ég gerði að umtalsefni fyrr í dag. Skemmst er frá að segja, að ég sé mig tilneydda að éta þau orð mín að mestu.

Fjölmiðlar hérlendis voru búnir að gera úr þessu gríðarlegt fjaðrafok og lýsa þessum sjónvarpsþætti sem fullkominni viðurstyggð, þar sem sýnt væri blóðugt andlit prinsessunnar og lemstraðir líkamarnir í klesstu flakinu. Það reyndist hins vegar helber lygi og ég fyrirverð mig fyrir að hafa "skotið áður en ég spurði".

Ef eitthvað er, þá er myndin upplýsandi á þann hátt, að hún birtir áður óséða fleti á málinu og skapar nýjan umræðugrundvöll um sorglegt slys sem snerti hjörtu og tilfinningar milljóna manna á einn eða annan hátt.

Maður ætti að vita betur en svo að dæma fyrirfram. Um það hef ég nú gerst sek, set upp hendur og biðst afsökunar. Hvet fólk til að sjá myndina sjálft og mynda skoðun sína í framhaldi af því.


DIANA: VITNIN Í GÖNGUNUM

Í kvöld verður heimildamyndin Diana: The Witnesses in The Tunnel sýnd hér á Stöð4. Forráðamenn stöðvarinnar ákváðu að "einlægur áhugi almennings" réttlætti birtingu mynda af síðustu mínútum í lífi stórslasaðrar prinsessunnar í Pont de l´Alma göngunum í París þann 31. ágúst 1997.

Fyrirhuguð sýning myndinnar hefur vakið hörð viðbrögð hér í Bretlandi og víðar. Þúsundir landsmanna hafa lýst andúð sinni og viðbjóði á því að sýnt verði í opinni dagskrá á landsvísu blóðugan og lemstraðan líkama prinsessunnar í bílflakinu þar sem sjúkraliðar reyndu árangurslaust að bjarga lífi hennar.

Synir hennar, prinsarnir William og Harry, hafa nú gert opinbert bréf sem þeir skrifuðu yfirmönnum Stöðvar 4 þar sem þeir þrábiðja um að hætt verði við sýningu myndarinnar. Bæði af tillitssemi við tilfinningar þeirra sjálfra sem ungir misstu sína elskuðu móður, og allra þeirra milljóna manna sem elskuðu hana og dáðu sem prinsessuna sína. "Við værum að bregðast skyldum okkar sem synir ef við gerðum ekki allt til að vernda hana núna, á sama hátt og hún verndaði okkur meðan hún lifði." Sögðu auk þess að birting á grafískum myndum af síðustu mínútum í lífi móður þeirra væri grimmdarleg árás á einkalíf og sáraukafull vanvirðing við minningu hennar.

Bættu svo við og spurðu: "If it were your mother dying in that tunnel, would WE want the scene broadcast to the nation? Indeed, would the nation want to see it?

Svari nú hver fyrir sjálfan sig.

Sem gamall blaðamaður álít ég að almenningur eigi rétt á upplýsingum. Vil jafnvel ganga þar lengra en margir félagar mínir. Gula pressan er komin til að vera, hvaða álit sem fólk hefur á henni. En sýning á þessarri svokölluðu "heimildarmynd" hefur ekkert með fréttir að gera.

Þetta er hreinræktaður sori!


SEX ÁR HJÁ HRÓA

Í dag eru liðin nákvæmlega 6 ár síðan ég flutti frá Íslandi og tók mér bólfestu í Nottinghamskíri í Englandi. Sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Ef eitthvað, þá sé ég eftir að hafa ekki gert það miklu fyrr.

Þó landið sé "fagurt og frítt" og hreina vatnið og ferska loftið sé á jafn mikinn heimsmælikvarða og bjartsýni þeirra sem þar búa, þá er bara svo ótal margt annað sem fellur mínusmegin á vogarskálarnar. Verðlag á flestu er svo algerlega úr samhengi við allt velsæmi að maður fær hreinlega áfall í hvert sinn sem maður heimsækir landið og þarf að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Gamla lumman um að landið sé eyland og svo afskekkt að flutningskostnaðurinn afsaki okrið er óþolandi. Þó menn væru fengnir til að synda með draslið til landsins OG VÆRU Á TÍMAKAUPI VIÐ ÞAÐ, þá myndi það ekki einusinni nálgast að geta réttlætt fáránlegt vöruverðið!

Og svo er það blessað veðurfarið. Ég ætla að láta það eiga sig að eiga um það orð að þessu sinni, vil ekki skemma góða skapið hér á þessu fallega júníkvöldi í útlandinu mínu þar sem ennþá eru 23 stig í garðinum þegar komið er undir miðnætti.

Já fjórði júní er flottur dagur. Þá eiga líka afmæli fullt af flottum konum. Nefni hér tvær; önnur þeirra er stórvinkona mín Anna Jóna Guðmundsdóttir kennari, sálfræðingur og feministi sem varð 44 ára í dag. Hin er seríalættleiðarinn, leikkonan og ofurvarabjútíið Angelina Jolie sem hélt uppá 34 ára afmælið. Ekki eins skemmtileg og Anna Jóna en allt í lagi samt. 


HVER VEGUR AÐ HEIMAN...

Voðalega hlakka ég til að fá hann Kristján minn heim nú á eftir. Hann er að koma að heiman. Maður hættir víst ekkert að kalla Íslandið heim þó það sé löngu hætt að vera heima. Hérna á ég heima. Þar sem fjölskyldan mín yndislega á heima. Sakna samt vinanna heima...

FÖÐURMINNING

PabbiÍ dag hefði faðir minn orðið 84 ára væri hann á lífi.

Eiríkur Valdimarsson í Vallanesi, Skagafirði. Bóndi, hrossaræktandi ... og besti FAÐIR í heimi. Í kvöld kveiki ég á kertum við myndina þína. Með söknuði í hjarta en umfram allt óumræðilegu þakklæti og takmarkalausri virðingu.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband