GRÆNIR GASBÍLAR - GRÓÐI OG SPARNAÐUR

Vinahjón okkar hér eru komin á grænan jeppa. Hann er að vísu dökkblár á litinn en er orðinn sparneytinn og umhverfisvænn. Og mér skilst að allt umhverfisvænt sé grænt. Það var þó ekki græni væni liturinn sem réði því að þau létu breyta honum í "gasbíl".

Ég hef nú í nokkur á flokkað heimilisruslið mitt samviskusamlega í "gler", "endurvinnslu" og "allt hitt" meðan vinir okkar gumsa öllu sínum afgangi í einn stóran, svartan. Það var því örugglega ekki af umhyggju fyrir andrúmsloftinu eða af ótta við gróðurhúsaáhrifin sem olli því að þau breyttu jeppanum. Ástæðan er einföld. Sparnaður. Þessir góðu vinir okkar eru nefnilega rosalega klók í peningamálum.

Þau höfðu ætlað að selja jeppann. Aðallega vegna þess að hann var drykkjusvoli og eyðslukló. Þeim hafði ekki tekist að finna kaupanda á þær tvær milljónir króna sem þau töldu sig þurfa að fá fyrir hann. Þá fréttu þau af verkstæði sem auglýsti að það breytti bensínhákum í sparibauka.

Mér fannst fljótt á litið frekar lítill sparnaður í að eyða 1.700 pundum (ca 215.000 kr) í breytinguna yfir í LPG (Liquefied Petroleum Gas). En þegar ég frétti að hann hefði varla verið búinn að komast út af verkstæðinu þegar þeim voru boðnar 2.5 milljónir fyrir hann, þá fattaði klókindin. Ekki bara hafði illseljanlegur jeppinn orðið auðseljanlegur og aukið söluverðmæti sitt yfir nótt, heldur kostaði það nú þrisvar sinnum minna að fylla tankinn. 

Fyrir íslenska ökumenn sem hafa áhuga að að kynna sér málið, þá birti ég hér gagnlegar slóðir.  http://www.lpg-cars.co.uk/financial/ Hérna geta menn fræðst um LPG breytingar og sýnd er aðgengileg og einföld tafla hver sparnaðurinn er miðað við eyðslu, vélarstærð og kílómetrafjölda sem eknir eru. Að vísu er þarna talað um mílur pr gallon, en því geta menn á einfaldan hátt breytt hér: http://www.onlineconversion.com/fuel_consumption.htm 

Að lokum úr eldsneytissparnaði yfir í afmæli. Stjúpinn minn góði hann Kristján Kristjánsson skólastjóri er sextugur í dag. Þau mamma eru nú að spóka sig í sumarsól í útlöndum og við fjölskyldan sendum honum hjartanlegar hamingjuóskir á stórafmælinu og vonum að þau njóti bæði dagsins og ferðarinnar. Krakkarnir báðu fyrir sérstakt risaknús til afa!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband