25.9.2007 | 14:33
FINNI ER DÁINN
Þetta hafa verið dagar vondra tíðinda. Hryggilegust var fregnin um að hann Finni okkar væri dáinn. Finnbogi Már Ólafsson, hálfbróðir Rósu dóttur minnar, hefði orðið 33ja ára í desember. Rósa mín er rétt 8 ára svo það var mikill aldursmunur á systkinunum. Hann bjó inni í borginni en við í þorpi skammt frá.
Við bjuggum öll saman fyrsta árið okkar hér í Englandi, og þá kynntist ég þessum góða dreng náið. Hann var hámenntaður í tölvuforritun og vann við það heima hjá sér, einfari í mörgu en yfirburða greindur, orðheppinn og betur lesinn en flestir sem ég hef kynnst. Það áttu ekki margir roð í hann í rökræðum.
Það er ekkert leyndarmál að hann ákvað að binda sjálfur endi á eigið líf. Hvers vegna vitum við ekki. Hann var ekki í "rugli" og var ekki óreglumaður, þó honum þætti gaman að fá sér í glas af og til, og træði sér í pípu þegar þannig lá á honum. Hann var heiðarlegur og skuldaði engum neinar fjárhæðir. Maður stendur hálf lamaður, með hugann fullann af eigin spurningum og reynir um leið af vanmætti að svara erfiðum spurningum barnanna. Hugga, faðma og þerra tár lítillar stúlku í mikilli sorg.
Það er ekkert langt síðan að hann var hjá okkur í mat og eyddum við þá kvöldinu í stofunni með drykk, kröfðum heimsmálin og fórum langt með að leysa lífsgátuna, eins og oftast þegar við hittumst. Mig óraði ekki fyrir því að þetta væri í síðasta sinn sem ég sæi hann á lífi, þó við ættum eftir að spjalla oft síðan á msn. Ég sakna hans og tilfinningin er blanda af reiði og sorg. Reiði yfir hans síðustu ákvörðun og sorg yfir fráfalli yndislegs drengs.
Ég bið fyrir honum í nýjum heimkynnum, svo og Óla mínum og allri hans fjölskyldu. Missir þeirra er mikill og sorg þeirra og harmur er átakanlegur. Megi algóður Guð gefa þeim huggun og styrk.
(Standandi frá vinstri; Óli og Finni. Sitjandi frá vinstri; Eydís, Kristján, Búi og Ollý Björk situr með Rósu á fyrsta ári. - Mynd: Helga-vorið2000)
Athugasemdir
Vil votta þér og þínum mína dýpstu samúð. Megið þið finna huggun og styrk.
Bestu kveðjur.
Fjóla Æ., 25.9.2007 kl. 15:08
Kæra Helga Guðrún,
votta þér og þínum mína innilegustu samúð. Mér þótti gaman að heyra aftur frá þér allt í einu á síðunni minni og kíkti því hingað til þín, en við blasa þá þessar sorglegu fréttir. Reyndu að vera ekki reið heldur bara skilningsrík og þakklát fyrir góðan dreng - þegar svona er gert er fólki ekki sjálfrátt og ekki hægt að álasa því, heldur bara finna til með sársaukanum sem þarna hefur ráðið för. Stundum er álagið við það að lifa einfaldlega of mikið, og það þarf ekki meira en eitt einasta augnablik til að skilja á milli.
Með góðar vættir og fallegar minningar geyma ykkur öll,
G Lilja
Guðfríður Lilja, 25.9.2007 kl. 20:18
Elsku Helga mín og fjölskilda, ég votta ykkur öllum mína innilegustu samúð, þetta eru skelfilegar fréttir og átakanleg sorg sem ríkir hjá þinni fjölskildu, ég vildi að ég gæti létt þér og þínum þessa byrgði, orð virðast svo tóm þegar svona kemur fyrir, sorgin ykkar svo ægileg að ekkert nema faðmalag og þögull stuðningur dugar í þessu ferli sem sorgin er. Þar sem ég get ekki mætt með faðmalaga ætla ég að biðja Guð um að umvefja ykkur í öllum sínum kærleika að leiða ykkur öll í gegnum næstu daga og alltaf.
Blessuð sé minning Finns sem kvaddi þennan heim allt of fljót.
Linda, 25.9.2007 kl. 21:35
Helga mín, ég votta þér mínar dýpstu samúðarkveðjur. Sjálfur er ég fósturfaðir, og get ímyndað mér missinn. Guð geymi og blessi minningu Finns.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 25.9.2007 kl. 21:42
Mínar innilegustu samúðarkveðjur; til þín og þinna, Helga mín.
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 21:53
Ég votta þér mínar innilegustu samúðaróskir á þessari erfiðu stundu, og bið almáttugan Guð um að gefa ykkur styrk.
Guðrún Sæmundsdóttir, 25.9.2007 kl. 22:31
Takk fyrir falleg orð, yndislegu vinir. Ég bið ykkur um að senda bænir ykkar til þeirra sem stóðu honum enn nær en ég gerði, s.s. föður hans og systkina. Hugur minn er hjá þeim og þeirra tárum.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 25.9.2007 kl. 22:44
Kæra Helga Guðrún
Votta þér, eiginmanni og fjölskyldum ykkar mína dýpstu samúð.
Á slíkum örlagastundum vega orð eigi þungt, en þeim mun meir getur hugur hlýr, von og kærleikur hjálpað þeim sem syrgja yfir erfiðasta hjallan! Um þann sem farin er, látum við ljúfar og fagrar minningar varðveitast, það hjálpar okkur að lifa áfram án horfina ástvina´, þótt við að líkum sættum okkur aldrei alveg við brotthvarf þeirra!
Einlæg vinarkveðja úr norðrinu.
Magnús Geir Guðmundsson, 25.9.2007 kl. 23:17
Innilegar samúðarkveðjur
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.9.2007 kl. 01:35
Votta þér og þínum mína innilegustu samúð.
Huld S. Ringsted, 26.9.2007 kl. 10:13
Ég votta þér og þínum mína dýpstu samúð. Ég get gert mér í hugarlund hvað þið gangið í gegnum núna þar sem ég hef misst manneskju sem mér þótti vænt um með þessum hætti, það er sárt að vita svona eftir á að það var ekki í lagi og enginn vissi það. Guð gefi ykkur styrk til að fást við þessa þungu byrði sem lögð hefur verið á herðar ykkar.
Flower, 26.9.2007 kl. 12:34
Ég votta þér og þínu fólki innilegrar samúðar.
Jens Guð, 26.9.2007 kl. 14:49
Ég samhryggist innilega.
Bið Guð að gæta ykkar á þessum erfiðu tímum og að hann taki Finna í kærleiksríkan faðm sinn.
Bryndís Böðvarsdóttir, 29.9.2007 kl. 15:20
Ég kynntist Finna í búðargerði 1991..
Við ásamt fleirum brölluðum ýmislegt, og stofnuðum meðal annars hljómsveit saman, en hún var skýrð Talisman og vorum við mestu rokkarar í heiminum (að okkar mati.)
Þegar ég flutti úr búðargerði, þá minnkuðu samskiptin og urðu smátt og smátt engin.
ég heyrði af því að hann væri fluttur til bretlands, en ekkert meir... ekki fyrr en í dag.
Þá berast þær sorglegu fréttir að Finni sé dáinn.. á svona stundu rifjast upp tími sem við áttum saman fyrir 15 árum og maður finnur að vinátta hans hefur skilið eftir sig spor sem aldrei munu hverfa, því allt í einu eru þessar minningar ljóslifandi, rétt eins og þetta hafi gerst í gær.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Finna, og megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.
Kveðja
Karl Bragason.
karl bragason (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 03:35
Leitt var að heyra þetta Helga mín. Innilegustu samúðarkveðjur og stórt knús til ykkar og ekki síst til Óla frá mér!!
GústaSig, 4.10.2007 kl. 23:20
Sæl Helga.
Var að sjá þetta blogg þitt, votta þér mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Er í London og ætla að reyna að hringja á þig á morgun.
Fer til Spánar á föstudagsmorgun.
Kv. Sigurjón
Sigurjón Sigurðsson, 11.10.2007 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.