NOSTALGÍA MIÐALDRA MÓÐUR

Verslunarmannahelgin er að baki, reyndar fór hún að mestu framhjá okkur hér í útlöndum. Ekki helgin sjálf auðvitað, hennar nutum við hér í blíðunni, m.a. með að bjóða góðum vinahjónum okkar í íslenska lambasteik með brúnuðum kartöflum, rjómasósu, íslenskri rabbabarasultu og öðru góðu meðlæti. Drukkum "dýrt" rauðvín með sem kostaði heilar 700 krónur í Co-Op, þar sem meðalverð er um 400 krónur fyrir gott matarvín. Borðuðum svo úti í bakgarðinum í 22ja stiga hita klukkan 8 um kvöldið. Röbbittinn! Röbbittinn!  Tounge

Maður er orðinn svo rosalega ráðsettur og rólegur á efri árum, en sú var nú ekki raunin hér áður fyrr meðan maður var (barn)laus og liðugur og lífið eitt látlaust laugardagskvöld. Man þá gömlu góðu daga þegar tjaldað var við Miðgarð og djammað út í eitt alla helgina og rétt skroppið heim til að fá sér eitthvað ætilegt og skjótast í sturtu. Eða verslunarmannahelgina sem ég eyddi uppi í Reykholtsdal hjá vinum mínum Óla og Gerðu á Bergi. Þar var sko aldeilis stuð og stemning; mikið drukkið, mikið sungið og mikið riðið út. Og örugglega mikið fleira af mörgu öðru sem orð eru ekki gerandi á hér. Já, í þá gömlu góðu daga.

Hagyrðingasamkoman í Borgarfirði Eystri var það sem helst hefði heillað mig á Íslandi um nýliðna helgi. Það er eitthvað við vísurnar sem er í senn heillandi, grípandi, rómantískt, mystískt, spennandi og óvænt. Ég hef sennilega fengið þennan vísnavírus með móðurmjólkinni því ég byrjaði kornung að safna vísum, stökum, limrum og ljóðum. Man sérstaklega eftir neyðarlegu kæri-guð-láttu-mig-hverfa-núna mómenti þegar ég var ca 12 ára og pabbi heitinn fann stílabókina mína með um 600 númeruðum klámvísum sem ég hafði safnað og skrifað niður með blýanti.

Hvað varð svo síðar um þá bók, ásamt öllum hinum vísnabókunum mínum veit ég því miður ekki. Það var stórt safn og merkilegt, enda hefur aldrei verið skortur á hagyrðingum í Skagafirði. Löngu seinna startaði ég svo vísnaþætti í Vestfirska fréttablaðinu, sem naut mikilla vinsælda. Að öðrum hagyrðingum þar vestra ólöstuðum er mér minnistæðastur Elís Kjaran, en hann var endalaus uppspretta af snjöllum tækifærisvísum. Af snillingum af heimaslóðum er af nógu að taka, en þar voru Jói í Stapa og Kiddi í Gilhaga í sérstöku uppáhaldi.

Það er við hæfi að enda þetta skraf um vísur og verslunarmannahelgar á limru sem ég hef lengi haft dálæti á og tileinka hér manninum mínum yndislega, sem tókst það sem engum öðrum hafði áður tekist; að temja eina tryppið frá Vallanesi sem Eiríkur náði aldrei að gera bandvant. 

Pabbi og RósinÉg aðhefst það eitt sem ég vil,

og því aðeins að mig langi til.

En langi þig til

að mig langi til

þá langar mig til svo ég vil.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Blessuð!

Gerðist svo djarfur að "bjóða þér upp"!

Þú vekur annars forvitni mína, finst þó að ég eigi að vita eitthvað meir um þig varðandi blaðamennskuna hér heima, en kem því ekki alveg fyrir mig.

Áttu eða áttir þú föðurbróður sem hét/heitir Valdimar?

Afskaplega skemmtileg fortíðarfrásögn, vísnastráknum mér skemmt!

Er annars voðalegur blaðrari um allan fjandan, eins og þú sérð á síðuskömminni minni!

Magnús Geir Guðmundsson, 8.8.2007 kl. 00:31

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Minn er heiðurinn vinur snar og "uppboðið" hefur verið þegið.

Nei, en ég á eldri bróður sem heitir Valdimar, og föðurafi minn hét einnig Valdimar (Guðmundsson). Hann var bóndi í Vallanesi en átti einnig jarðirnar Brekku og Kúskerpi. Var um margt á undan sinni samtíð kallinn, byggði eitt fyrsta steinhúsið í firðinum uppúr aldamótum og stóð fyrir stofnun hrossaræktarfélagsins um svipað leyti, 1904 ef ég man rétt. Lést árið 1944, en þá tók pabbi við búinu. Valdi bróðir tók svo við þegar hann lést 17. ágúst, 1985.

Vegna þess að þetta er orðin "gömul" bloggfærsla, þá býst ég ekki við að margir rekist hér inn eftir þetta. Ætla því að hætta á að hvísla að þér fyrstu vísunni sem ég hnoðaði saman, þá 10 ára. Samdi hana um Valda bróður til að reyna að vera sniðug og fiska vandfengna athygli. Hann var þá orðinn 18 ára töffari og búinn að safna alskeggi, sem litlu systur fannst gera lítið til að prýða snjáldrið á honum. Vísan var auðvitað bæði viðvaningsleg og ódýr, en hún hljóðaði svona:

Valdi bróðir ansi er

asnalegur stundum

því nef hann ljótt og loðið ber

sem líkist trýni á hundum.

 

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 8.8.2007 kl. 01:16

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Haha! Þetta er nú alveg glimmrandi gott hjá tíu ára telpukorni! Ekki var ég nú svona hagur tíu ára ormurinn!Það hefur þá verið afi þinn en ekki faðir sem mér er tjáð að hafi átt í deilum við bróður sinn!? Fór nefnilega að spyrja móður mína góðu um fö'ður þinn, nafnið hans og bæjarheitið eitthvað svo kunnuglegt og þá var hún að spá í þessi frægu deiluefni. Sjálf er hún fædd og uppalin ekki svo langt í burtu, en þó ekki í skagafirðinum, heldur rétt handan við í A-Hún, fædd að Æsustöðum í Langadal, en ólst upp í Þverárdal.

Og meðan ég man, allt fljótandi í góðum og skemmtilegum hagyrðingum í Skagafirðinum auk hesta- og KVENNAMÖNNUM auðvitað! Andrés Valberg er t.d. einn sem ég hef haft mætur á, alveg afbragðskall þegar hann var og hét.(held að hann sé látin.)

Og limran þín hérna alveg gull!

Magnús Geir Guðmundsson, 8.8.2007 kl. 02:17

4 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Takk fyrir  Jú þeir áttu víst í einhverjum erjum bræðurnir, hann og Jói í Vallholti. Ég man ekki lengur út af hverju en ég þarf að yfirheyra mömmu betur um þetta, hún er bæði sagnabrunnur og mikill ættfræðispekúlant. En Guðrún (Jóhannsdóttir) föðuramma mín er fædd í Svartárdal svo við getum örugglega rakið ættir saman ef vel er gáð. Er að grúska í Íslendingabók, ef þú segir mér afmælisdaginn þinn þá skal ég koma með skyldleikann í hvelli.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 8.8.2007 kl. 13:10

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Halló aftur Helga Guðrún hin hressa!

Vonandi ekki allt að fara í sama ruglið og í fyrra skiptið með "Foot ´n´Mouth" en voðalegt ef þetta skildi nú vera ný útgáfa af hryðjuverkum!? Menn eiga bara að vera til friðs þarna, spila sinn fótbolta og krikket, stunda leikhús og framleiða Rokk! SAmmála!?

En pjakkurinn ég er fæddur 19.04.66 og það á slaginu kl. 6! (ekki draga of sterkar ályktanir af því samt hehe!) Og mig grunar nú að frú Helga G. sé nú ekkert svo fjarri þessum aldri, ekki svo "miðaldra" eins og hún lætur í veðri vaka!

En þetta með hugsanlegan skildleika, þá er nú móðurliðið mitt nú að upplagi úr Þingeyjarsýslum, amma og afi þvældust nokkuð um framan af búskap sínum, hann fæddur á bænum Skuggabjörgum í Ljósavatnsskarði, en hún á Brettingsstöðum á Flateyjardal, er semsagt af þeirri nokkuð svo þekktu ætt kenndri við bæinn! Föðurslektið hins vegar héðan úr Eyjafirðinum fagra og föðurafi minn Óskar Gíslason, mikill byggingajaxl um og fyrir miðja sl. öld. VAr víst bæjarfulltrúi líka karlinn um skeið, en nei, ekki fyrir borgarastéttina eins og ætla mætti, heldur fyrir "hina" var harður Kommi! Dó þó langt fyrir aldur fram ´57 jafngamall öldinni, eins og föðuramma mín reyndar líka, en hún varð nú 95!

Bestu kveðjur til "Betulands"!

Magnús Geir Guðmundsson, 8.8.2007 kl. 15:31

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Afsakaðu!

Gleymdi að nefna, að föðuramman hét Agnea Tryggvadóttir ("Blikk" Jónssonar, eins af þeim fyrstu sem unnu með slíkt efni) og móðurafi og amma hétu Gunnar Árnason og Ísgerður Pálsdóttir!

Magnús Geir Guðmundsson, 8.8.2007 kl. 15:34

7 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Já, ég var í geitarhúsinu og ullin var uppseld. Datt í hug að ég væri að finna frænda, en það var heldur langsótt. Móðurafarnir okkar voru víst fimmmenningar og það kallast nú tæpast skyldleiki.  

Jú þetta er agalegur fjandi þetta með gin-og klaufaveikina. Þetta er reyndar (ennþá) staðbundið við Surrey og nú eru 3 býli sýkt. Það eru allar líkur á því að veiran hafi sloppið frá rannsóknarstöð þarna rétt hjá, en þeir framleiða m.a. mótefni ýmiskonar. Nú er bara að vona að þeim takist að einangra þetta þarna svo þetta breiðist ekki annað.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 8.8.2007 kl. 16:08

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Takk fyrir það heillin!

VAr sem mig grunaði, að minnsta kosti ekki á þennan vegin um skildleika að ræða. Þú getur samt til gamans rakið saman karl föður minn og´föður þinn eða móður, annað gæti þá komið upp úr dúrnum? Guðmundur Karl heitir hann f. 15.09 1930.

Heyrðu svo, hefur þú nokkuð séð bókina mína? Neinei, hef ekki týnt neinni hehe, en gaf út vísnabók fyrir þremur árum. Þyrfti að koma henni á þig, þó ei teljist hún til heimsbókmenntanna!

Magnús Geir Guðmundsson, 9.8.2007 kl. 14:57

9 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það væri sko veisla að fá hana til lesningar, og íslenskar vísnabækur eru heimsbókmenntir! Well, með örfáum undantekningum.  

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 10.8.2007 kl. 02:43

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hehe, ég er þá allavega á leið í "útrás" hver veit nema að ég verði bara HEIMSFRÆGUR, ef þú færð málum ráðið!?

En bókarskræðan er svona samsuða frá nokkrum árum á undan, með misgóðum barningi eins og þar stendur! N'u veit ég hvar í UK þú ert, þarf bara að finna nánar hvar þitt "Lífshreiður" er staðsett! ERt kannski í símaskránni hjá ja.is?

Sutla henni í póst um leið og. nei annars, sendu mér bara póst á:

mgeir@nett.is, hvaða rugl er þetta í mér að segja það ekki strax!?

Og meðan ég man, góðan og blessaðan dagin Helga Guðrún Eiríksdóttir!

Magnús Geir Guðmundsson, 10.8.2007 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband