16.10.2007 | 01:00
RÚNKI HLEYPUR SKÍTASPRETT
Fyrir rúmum þrjátíu árum lét hrekkjusvín úr Skagafirði ungan húsasmið hlaupa skítasprett.
Rúnki Friðriks var að smíða íbúðarhús móður þeirrar stuttu og stjúpa. Hann var þekktur galsari og endalaust að stríða og hrekkja ungu dömuna. Allt þó í góðu.
Heimasætunni fannst einhverju sinni að nú hefði hann lagt inn fyrir almennilegri hefnd. Eitthvað sem gleymdist ekki í bráð, og fréttist helst um sveitina.
Hún fékk í lið með sér litla frænku sína, Hrefnu dóttur Bjarnheiðar og séra Sigfinns, en hún var þá í stuttri sumardvöl hjá Siggu frænku. Hefur þá varla verið meira en 7-8 ára, yndisleg, hugmyndarík og stórskemmtileg skotta. Saman settust þær niður og brugguðu launráð.
Hugmyndin fæddist og fékk á sig spennandi mynd. Þær ætluðu að láta Rúnka laxera og fylgjast með því þegar hann hleypi skítaskreppinn. Það var nefnilega ekki komið klósett í nýbygginguna á Lækjarbakkanum, svo hann varð að fara yfir í skólahús til að ganga örna sinna, örugglega góða 1-200 metra.
Þó var ákveðið atriði sem þvældist fyrir þeim frænkum. Ýmislegt höfðu þær í vösunum en ekki laxerolíu, hún fékkst ekki annars staðar en í apótekinu á Króknum. Þangað voru 30 kílómetrar og hvorug þeirra hafði bílpróf.
Heimasætan vissi hvaðan hún hafði hrekkjagenin og ákvað að leita til móður sinnar með þetta vandamál. Sú gamla, þá auðvitað á besta aldri, brást við með gleðibrosi og sagðist gjarnan myndu aðstoða við verkið. Hafði sjálf ekki farið varhluta af Rúnkahúmornum.
Nú var steikt þessi yndislega ýsa gerð görótt kokteilsósa með. Frú Sigríður vissi að þetta uppáhaldsmaturinn Rúnka, enda var hann hjá henni í fæði meðan á byggingarvinnunni stóð.
Nornirnar þrjár voru slægar og slóttugar, og vissu að ef enginn annar æti kokteilsósuna, myndi Rúnki réttilega gruna þær um græsku. Hann var á verði fyrir hrekkjubrögðum þeirra, rétt eins og þær voru fyrir hans.
Einhverjum varð að fórna og sá eini sem til greina kom var Kristján stjúpi. Held þó að Hrefna hafi komið honum til bjargar á örlagastundu. Ekki datt þeim mæðgum það í hug.
Hrekkurinn heppnaðist með miklum bravúr í alla staði. Þrenningin beið þolinmóð skamma stund en argaði svo úr hlátri þegar smiðurinn gaf frá sér stunu, henti frá sér hamrinum og hljóp eins og fætur toguðu niður í skólahús. Þar veltust þær um af hlátri meðan óhljóðin bárust frá dollunni og óprenthæft bölvið og hótanirnar í eiganda afturendans sem á henni sat.
Ó, í þá gömlu, góðu daga.
Laxerolía í samlokum í Brekkubæjarskóla á Akranesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er andstyggilegt á mjög svo skemmtilegan máta hahaha.
Flower, 16.10.2007 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.