31.5.2007 | 05:04
HLYNUR VINUR - ÞÉR AÐ KENNA
Jæja þá, aldrei hélt ég að ég yrði bloggari.
Ekki þó vegna þess að ég teldi mig ekki hafa neitt að segja. Ársgömul byrjaði ég að gjamma skoðanir mínar á lífinu og tilverunni. Gaf lítið fyrir þau fyrirmæli foreldra minna að vera prúð og hlédræg og bíða þess að verða spurð til að mega svara. Árum saman takmarkaðist hlustendahópur minn við viðstödd fórnarlömb en svo kynntist ég Hlyni.
Hann var þá ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins á Ísafirði en ég hafði haustið áður ráðið mig sem kennaralíki við grunnskólann á staðnum.
Eftir fjörugan vetur með mótmælum og meðmælum kom að því að finna sér sumarvinnu til að eiga fyrir salti í grautinn og kollu í Krúsinni. Á Ísafirði þekktu allir flesta og flestir þekktu alla og þeir kennarar sem ætluðu ekki að leggjast í ferðalög um sumarið voru fyrir löngu búnir að ráða sig í sumarvinnu. Utanbæjarfólkið var afgreitt sem eitthvað af færibandinu sem hyrfi næstum áður en það kæmi og það væri nánast tímaeyðsla að kynnast því.
En rétt fyrir skólaslit benti minn ágæti samkennari, Herdís Hübner, mér á að það vantaði blaðamann á Vestfirska.
Þangað skundaði ég skjálfandi á beinum, án þess að kunna á ritvél hvað þá tölvu.
Til að gera langt mál stutt þá var ég ráðin þar til starfa og eftir það varð ekki aftur snúið. Og nú nærri 20 árum seinna varð minn gamli ritstjóri, mentor, vinur og meistari Hlynur Þór Magnússon til þess að ég dirfist enn sem áður óverðug upp á dekk og opna bloggsíðu.
Og þá má köttur heita í höfuðið á mér að ég liggi á skoðunum mínum! (Kveðjur til nöfnu minnar Geirdal)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.