4.6.2007 | 23:26
SEX ÁR HJÁ HRÓA
Í dag eru liðin nákvæmlega 6 ár síðan ég flutti frá Íslandi og tók mér bólfestu í Nottinghamskíri í Englandi. Sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Ef eitthvað, þá sé ég eftir að hafa ekki gert það miklu fyrr.
Þó landið sé "fagurt og frítt" og hreina vatnið og ferska loftið sé á jafn mikinn heimsmælikvarða og bjartsýni þeirra sem þar búa, þá er bara svo ótal margt annað sem fellur mínusmegin á vogarskálarnar. Verðlag á flestu er svo algerlega úr samhengi við allt velsæmi að maður fær hreinlega áfall í hvert sinn sem maður heimsækir landið og þarf að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Gamla lumman um að landið sé eyland og svo afskekkt að flutningskostnaðurinn afsaki okrið er óþolandi. Þó menn væru fengnir til að synda með draslið til landsins OG VÆRU Á TÍMAKAUPI VIÐ ÞAÐ, þá myndi það ekki einusinni nálgast að geta réttlætt fáránlegt vöruverðið!
Og svo er það blessað veðurfarið. Ég ætla að láta það eiga sig að eiga um það orð að þessu sinni, vil ekki skemma góða skapið hér á þessu fallega júníkvöldi í útlandinu mínu þar sem ennþá eru 23 stig í garðinum þegar komið er undir miðnætti.
Já fjórði júní er flottur dagur. Þá eiga líka afmæli fullt af flottum konum. Nefni hér tvær; önnur þeirra er stórvinkona mín Anna Jóna Guðmundsdóttir kennari, sálfræðingur og feministi sem varð 44 ára í dag. Hin er seríalættleiðarinn, leikkonan og ofurvarabjútíið Angelina Jolie sem hélt uppá 34 ára afmælið. Ekki eins skemmtileg og Anna Jóna en allt í lagi samt.
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 02:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 21:24
HVER VEGUR AÐ HEIMAN...
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 00:43
FÖÐURMINNING
Í dag hefði faðir minn orðið 84 ára væri hann á lífi.
Eiríkur Valdimarsson í Vallanesi, Skagafirði. Bóndi, hrossaræktandi ... og besti FAÐIR í heimi. Í kvöld kveiki ég á kertum við myndina þína. Með söknuði í hjarta en umfram allt óumræðilegu þakklæti og takmarkalausri virðingu.
Dægurmál | Breytt 7.6.2007 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2007 | 05:04
HLYNUR VINUR - ÞÉR AÐ KENNA
Jæja þá, aldrei hélt ég að ég yrði bloggari.
Ekki þó vegna þess að ég teldi mig ekki hafa neitt að segja. Ársgömul byrjaði ég að gjamma skoðanir mínar á lífinu og tilverunni. Gaf lítið fyrir þau fyrirmæli foreldra minna að vera prúð og hlédræg og bíða þess að verða spurð til að mega svara. Árum saman takmarkaðist hlustendahópur minn við viðstödd fórnarlömb en svo kynntist ég Hlyni.
Hann var þá ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins á Ísafirði en ég hafði haustið áður ráðið mig sem kennaralíki við grunnskólann á staðnum.
Eftir fjörugan vetur með mótmælum og meðmælum kom að því að finna sér sumarvinnu til að eiga fyrir salti í grautinn og kollu í Krúsinni. Á Ísafirði þekktu allir flesta og flestir þekktu alla og þeir kennarar sem ætluðu ekki að leggjast í ferðalög um sumarið voru fyrir löngu búnir að ráða sig í sumarvinnu. Utanbæjarfólkið var afgreitt sem eitthvað af færibandinu sem hyrfi næstum áður en það kæmi og það væri nánast tímaeyðsla að kynnast því.
En rétt fyrir skólaslit benti minn ágæti samkennari, Herdís Hübner, mér á að það vantaði blaðamann á Vestfirska.
Þangað skundaði ég skjálfandi á beinum, án þess að kunna á ritvél hvað þá tölvu.
Til að gera langt mál stutt þá var ég ráðin þar til starfa og eftir það varð ekki aftur snúið. Og nú nærri 20 árum seinna varð minn gamli ritstjóri, mentor, vinur og meistari Hlynur Þór Magnússon til þess að ég dirfist enn sem áður óverðug upp á dekk og opna bloggsíðu.
Og þá má köttur heita í höfuðið á mér að ég liggi á skoðunum mínum! (Kveðjur til nöfnu minnar Geirdal)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)