EKKI KARLMANNSVERK!

Á mínu heimili er ekkert til sem heitir karlmannsverk og kvenmannsverk. Við einfaldlega gerum það sem við getum, viljum og nennum, ... þegar við getum, viljum og nennum. Ég smíða, mála, legg gólfteppi og flísar, set upp hillu- og ljósastæði, slæ garðana og sníð til skógargróðurinn sem skilur að lokaðan bakgarðinn okkar og nágranna okkar á tvo vegu.

Ég lagði parket á neðri hæðinni og fjárfesti í timbri í uppáhalds timbursölunni minni fyrir girðinguna sem ég smíðaði fyrir framan húsið. Verkfærakistan mín samanstendur af flestu því sem ég fékk ekki að nota sem stelpa. Faglærður smiður myndi vera stoltur af að eiga það sem þar er. Þar á ég flest þau verkfæri sem ég þarf til að gera það sem mig langar. Þar með talið að gera upp eldgömul antikhúsgögn sem ég hef viðað að mér fyrir tíkalla á pöbbauppboðum og útimörkuðum og prýða nú heimilið okkar. Úr afgangs viðarspýtu smíðaði ég svo 4ra flösku bar á vegginn í stofunni.

Einar, minn yndislegi eiginmaður, getur þetta allt líka. Hann er afar handlaginn og listamaður til flestra verka. Honum finnst bara fínt að þurfa ekki að rjúka til ef skipta þarf um peru. Hann eldar þegar hann langar til, setur í þvottavél, vaskar upp, ryksugar og skúrar jafnvel þegar best liggur á honum. Hann gerir líka helling annað. Kemur til dæmis á harðaspretti eins og hesturinn undir hvíta riddaranum í hvert sinn sem hann heyrir öskur. Veit að þá þarf að lóga kónguló.

Í gærmorgun slagaði ég niður í eldhús fyrir allar aldir, með stírurnar í augunum, á undan öllum hinum (aldrei slíku vant). Hafði vaknað við glamrið í mjólkurpóstinum og af því ég þurfti á klóið hvort sem var, ákvað ég að koma mjólkurflöskunum í kæli áður en gula fíflið næði að skína á þær og hita þær ódrekkandi. Opnaði eldhúsdyrnar og sá að kattakvikindin höfðu dröslað risastórum fugli innum kattalúguna og þar lá hann í blóði sínu hálfétinn en steindauður sem betur fer. Fjaðrir útum allt gólf og hreyknar og hróðugar læðurnar lágu saddar og malandi ofaná kettlingahrúgunni í bastkörfunni. Fjandinn sjálfur logandi, hugsaði ég og sópaði megninu af fjöðrunum útí hornið næst bakdyrunum. Ákvað að þetta væri verk fyrir fyrir þá stjúpfeðga þegar þeir vöknuðu og gleymdi öllu um mjólk sem lægi undir skemmdum í sólinni á meðan ég forðaði mér á flótta upp í rúm og sofnaði samstundis. 

HGE 03Ég vaknaði svo undir hádegi við að Rósa mín hristi mig til og sagði á sinni sérstöku ísl-ensku; (hún var ársgömul þegar við fluttum og talar svolítið eins og KN orti) "MAMMA!! Kisa er búin að killa alveg huge fugl og troðonum inní kitchenið og það er blóð og feathers útum allt!!" -"Já ég veit elskan, sá það í morgun", hvíslaði ég hálfsofandi og ákvað að leika mig steinsofandi þar til málunum hefði verið reddað. Í sömu mund kom Kristján inn til okkar nývaknaður og lagðist til fóta. Hafði ráfað hálfsofandi niður til að fá sér morgunmat en hrökklast upp aftur þegar hann sá vígvöllinn. Þagði smástund, eins og til að sannfæra sjálfan sig um að þetta væri ekki hans djobb. Beindi svo máli sínu til Einars, sem hafði vaknað við æsifréttirnar og var sestur upp við dogg og búinn að koma risapúðanum fyrir við bakið. -"Plís Einar, þetta er alveg últra ógeðslegt! Mig hryllir bara við tilhugsuninni um að snerta þetta og ég veit að mamma fær kast þegar hún vaknar".

Þegar hér var komið sögu lá ég með lokuð augun, glaðvakandi og spennt fyrir framhaldinu, en þóttist sofa og hraut krúttlega til að vera sannfærandi. Einar þagði fallega líka en laut svo að mér, kyssti mig á ennið og hvíslaði: -"Góðan daginn elskan". Vonaði örugglega að nú færi ég niður og færði honum kaffið í rúmið, en ekki öfugt eins og venjulega. Bjartsýni kostar ekkert frekar en kurteisi. Nú fannst mér kominn tími til að taka þátt í deginum og settist upp í rúminu. Teygði mig risakoddann minn og setti bakvið mig, kyssti manninn minn létt á kinnina og umlaði "góðan daginn elskurnar mínar" við hann og krakkana sem nú voru bæði komin til fóta. -"Það verður einhver að gera eitthvað í þessu niðri", sagði 12 ára unglingurinn diplómatískt en í þeim tón að við vissum öll að það yrði að vera einhver annar en hann.

Við Einar þögðum bæði drykklanga stund. Einar þagði vegna þess að hann vissi að það myndi dæmast á hann að fjarlægja hræið. Ég þagði vegna þess að ég vissi að það myndi dæmast á Einar að fjarlægja hræið. En þá barst hjálpin með 7 ára stelpurödd: "-Pabbi, let me do it! Ég geri bara eins og Kane sagði mér að gera þegar Suggs skítti í garðinum okkar. Ég bara set hendina á hvolf inní plastic bag og grabba svo fuglinn eins og skítinn og hendonum í binnið fyrir endurvinnsluna!".

Þessi skelegga ræða þeirrar stuttu vakti hlátur í rúminu og sorgleg örlög fuglsins voru gleymd. En áður en við gátum stoppað hana af, þá heyrðum við hana skoppa niður stigann og kalla hreykna yfir eigin hugrekki: -"Rósa to the resque!!"

Ég ætlaði á eftir henni en hætti við það. Hugsaði, stolt af stelpunni minni: "ÞAÐ ER EKKERT TIL SEM HEITIR KARLMANNSVERK!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábær saga!

Guðríður Haraldsdóttir, 13.6.2007 kl. 02:03

2 Smámynd: GústaSig

Alltaf jafn skemmtileg sögukona Helga mín :) Mikið rosalega er hún Rósa falleg stúlka!!

GústaSig, 20.6.2007 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband