BLOGGAÐ Í BOÐI HÓMERS

Maðurinn minn er einmitt rétt farinn út um dyrnar með börnin til að sjá Simpsons bíó. Þótt veðrið sé nú loksins orðið gott eftir endalausa rigningu, þá fannst okkur óvarlegt að gera eitthvað með þeim úti því þau eru rétt að jafna sig greyin eftir flensuskít með tilheyrandi leiðindum. Þetta með að þora ekki að leyfa börnunum út er nú reyndar sennilega eitthvað sem situr eftir í manni frá Íslandi, því nú er heitara úti en inni og lítil hætta á ofkælingu.

Sumarfríið hjá krökkunum hófst í síðustu viku og þá tók bóndinn sér einnig tveggja vikna frí. Síðan þá höfum við gert eins margt skemmtilegt saman og veður hefur leyft, m.a. farið í bíó, skemmtigarða og garðveislur hjá vinum. Ungir vinir hafa fengið að gista, vöfflur bakaðar og Hómer brenndur í heimagerðan leir.

Amma í Skagafirðinum hringdi svo um daginn og "gerði mig happiest litlu stelpuna í öllum heiminum" þegar hún bauð Rósuskottinu að koma og vera hjá þeim afa í smá tíma í sveitinni. Hún er nú bráðum átta og kallar sko ekki allt ömmu sína þótt ömmurnar hennar séu "bestu konurnar í heiminum fyrir utan mömmu".  Hún fer því í sína fyrstu Íslandsferð "alein með Kristjáni", sem hlakkar mikið til að hitta pabba sinn og stjúpu, og ekki síst að sjá nýfædda systurdóttur sína sem hann er að rifna af stolti yfir.

Fljugandi furduhlutirVið hjónakornin vorum líka afskaplega stolt af ungunum okkar þegar þau komu heim með hæstu einkunnir og hrós fyrir dugnað og prúðmennsku í skólalok. Ákváðum að verðlauna þau með risastóru trampólíni sem nú tekur upp hálfan bakgarðinn. Ekkert "leikfang" hefur verið jafn vinsælt og þetta. Við gerðum okkur alveg grein fyrir því að þetta kostaði aukin gestagang, en ekkert hefði getað búið okkur undir að kynnast helmingnum af börnum bæjarins á einni viku... Ef það væri ekki fyrir fjögurra metra hátt öryggisnetið umhverfis þetta hoppitól, þá hefði ekki bara rignt vatni í garða nágrannanna heldur fljúgandi krökkum í ofanálag. 

Ég ætlaði að vera dugleg meðan Einar færi með krakkana á Simpsons, þvo ferðaföt og pakka niður fyrir Íslandsfarana mína. En þá gafst líka kærkomið næði til að slappa af og blogga nokkur orð...

 


mbl.is Simpsons fjölskyldan vinsæl hjá kvikmyndahúsagestum vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Hæ Skvís, gaman að sjá þig aftur á blogginu.  Enn glaðlegra að sjá að þið hafið ekki drukknað í þessum rigningum í Englandi.  Svona trampólín eru líka vinsæl hér heima, og eru í görðum vítt og breytt, þetta er dásamleg hreyfing fyrir börnin og netin gera þetta nokkuð öruggt leikfang ef svo má að orði komast.

Bk.

Linda.

Linda, 30.7.2007 kl. 23:00

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Takk fyrir, elskurnar mínar. Ég tók mér bara smá pásu til að eyða dýrmætum tíma með fjölskyldunni í skólalok og fyrstu frívikurnar. Nú eru börnin á leið til Íslands þegar þetta er skrifað og við gamla fólkið verðum ein í kotinu næstu vikur. Við ætlum okkur að njóta þess að vera saman tvö ein í fyrsta sinn án unganna. Það verður bæði skemmtilegt.. og skrýtið. Ég er strax farin að sakna þeirra, og bara 3 tímar síðan þau fóru.  En nú í barnleysinu hefur maður ekki lengur afsökun fyrir að hafa ekki tíma til að blogga. Eða.. jú annars, ég tek síðustu setningu til baka.  

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 1.8.2007 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband